Innlent

Bæjaryfirvöld í Eyjum vilja ekki að samið verði við Landsflug

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum vilja ekki undir neinum kringumstæðum að heilbrigðisráðuneytið semji aftur við Landsflug um sjúkraflug, ef ástæða þykir til að bjóða flugið út á ný.

Starfsmenn heilbrilgðisráðuneytisins eru umþaðbil að ljúka úttekt á því hvort flugfélagið Landsflug hefur efnt samning sinn við ráðuneytið um sjúkraflug frá Vestmannaeyjum. Tilefnið er erindi frá bæjarstjórn um úttektina, þar sem ítrekað hefur komið fyrir að sjúkravél frá félaginu er ekki staðsett í Eyjum þegar þurft hefur á að halda. Nú síðast gerðist það fyrr í vikunni, eftir að úttektin hófst.

Að sögn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra fara bæjaryfirvöld þess á leit við ráðuneytið, að ef það komi í ljós að félagið hafi ekki efnt samninginn og efnt verði á ný til útboðs um flugið, að þess verði sérstaklega gætt að hugsanlegt tilboð frá landsflugi komi ekki til greina. Landsflug tók við sjúkrafluginu um áramót og er ákvæði í samningnum um að sjúkraflugið skuli vera staðestt í Eyjum, en að sögn bæjarstjórans hefur ítrekað orðið misbrestur á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×