Bandaríska hlaupadrottningin Marion Jones hefur enn á ný verið borin þungum sökum um lyfjamisnotkun, nú síðast eftir að hún dró sig úr keppni á Gullmótinu í Zurich sem stendur nú yfir í Sviss. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum tala nú um að komið sé í ljós að hún hafi fallið á lyfjaprófi á móti í heimalandi sínu í sumar.
Jones hefur lengi verið ásökuð um lyfjanotkun, en þetta hefur hingað til aldrei sannast og hefur þessi magnaði spretthlaupari ítrekað haldið fram sakleysi sínu. Jones er þrítug og á yfir höfði sér tveggja ára keppnisbann ef staðfest verður að hún hafi fallið á lyfjaprófinu.