Ríkissjóður var rekinn með tæplega 113 milljarða króna afgangi á síðasta ári. Þetta er 111 milljörðum króna meiri afgangur en árið 2004. Í Vefriti fjármálaráðuneytisins segir að skýringin felist að hálfu leyti í sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. en hann nam 56 milljörðum króna. Hinn helmingurinn skýrist af góðri afkoma ríkissjóðs af þeirri uppsveiflu sem verið hefur í efnahagslífinu og aðhaldi í útgjöldum.
Í Vefritinu segir ennfremur að aðrar tekjur ríkissjóðs hafi hækkað um 55 milljarða krónur en á sama tíma séu útgjöld hans nær óbreytt milli ára.
Að söluhagnaði Símans undanskildum var afkoma ríkissjóðs jákvæðari á síðasta ári en dæmi eru um áður, að því er fram kemur í ritinu.
Þá var tæpum 50 milljörðum varið til að greiða niður erlend lán og jókst handbært fé ríkissjóðs um 27 milljarða króna. Hreinskuldastaða ríkissjóðs, þ.e. skuldir að frádregnum veittum lánum, var í árslok 60 milljarðar í stað 156 milljarða króna í ársbyrjun.
Tekjur ríkissjóðs á árinu námu 421 milljarði króna. Skattar á einstaklinga, fyrirtæki og fjármagnstekjur nema 132 milljörðum, sem er 30 milljarða hækkun á milli ára. Þar munar mestu um 12 milljarða hækkun tekjuskatts lögaðila, sem tvöfaldast milli ára.
Þá námu gjöld ríkissjóðs í fyrra 308 milljörðum króna, sem er 8 milljarða króna hækkun á milli ára.