Viðskipti innlent

Kjalarvogur hagnaðist um 63 milljónir króna

Kjalarvogur ehf., dótturfélag Húsasmiðjunnar hf., skilaði 63 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er tæp tvöföldun á milli ára en á sama tíma í fyrra hagnaðist félagið um 35 milljónir króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að rekstrartekjur Kjalarvogs hafi numið rúmum einum milljarði króna á tímabilinu. Vörunotkun nam 638 milljónum króna og annar rekstrarkostnaður 313 milljónum króna.

Enginn starfsmaður starfaði hjá félaginu á tímabilinu en Húsasmiðjan hf. sá um daglegan rekstur.

Heildareignir Kjalarvogs ehf. voru bókfærðar 619 milljónir króna í lok júní. Heildarskuldir voru um 403 milljónir króna á sama tíma og þar af námu langtímaskuldir um 184 milljónum króna. Þá nam eigið fé Kjalarvogs ehf. 216 milljónum króna í júnílok og var eiginfjárhlutfall 34,9 prósent.

Í tilkynningunni segir að tilgangur félagsins sé innflutningur, heildsala og smásala á neytenda- og iðnaðarvörum, ásamt annarri starfsemi, sem af því leiði. Útlit sé fyrir áframhaldandi aukningu eftirspurnar og markaðsstaða félagsins sé ágæt. Áætlanir eru um endurnýjun og fjölgun útsölustaða á næstunni til að mæta þessari auknu eftirspurn, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×