Viðskipti innlent

Spá sterkri krónu fram yfir áramót

Gengisvísitala krónunnar styrktist um 1,1 prósent í dag og stóð vísitala hennar í 118,7 stigum við lokun markaða. Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að krónan haldist tiltölulega sterk fram yfir áramót.

Í Hálffimm fréttum deildarinnar segir að gengisvísitala krónunnar verði samkvæmt spá á svipuðu bili og nú eða í kringum 123 stigum. Endurvakning vaxtamunsviðskipta og komi aukin útgáfa krónubréfa í veg fyrir veikingu hennar þegar litið sé til skamms tíma.

Þá segir deildin gjalddaga krónubréfa nú í haust hafa verið ákveðna prófraun á gengi krónunnar, þar sem alls komu til gjalda um 60 milljarðar króna með vaxtagreiðslum í september. Gjalddagarnir voru tíðindalitlir og gengi krónunnar var svo til óbreytt þann 15.september þegar um 30 milljarða krónur komu til gjalda. Á næstu 4-5 mánuðum eru nær engin krónubréf á gjalddaga og ný útgáfa stendur í blóma því virðist sem innflæði erlends fjármagns sé nægjanlegt til þess að gengi krónunnar haldist sterkt á 4. ársfjórðungi, að sögn greiningardeildar Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×