Erlent

Vilja aftur að samningaborðinu

MYND/AP

Norður-kóreumenn eru tilbúnir til að snúa aftur að samningaborðinu og ræða næstu skref í kjarnorkudeilu sinni við vesturveldin. Alexander Alexeyev, vara-utanríkisráðherra Rússlands, sagði þetta í viðtali við Itar-Tass fréttastofuna síðdegis í dag. Ekki kemur fram í fréttinni að stjórnvöld í Pyongyang setji nokkur skilyrði fyrir því að hefja viðræður á ný eftir tæplega eins árs hlé.

Bandaríkjamenn sendu í dag Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna nýja og mildari ályktun um aðgerðir gegn Norður-Kóreumönnum, en andstaða var við fyrri tillögur frá Rússum og Kínverjum. Í nýju ályktuninni eru viðskiptahöft milduð og ekki gert ráð fyrir hernaðaraðgerðum. Rússar og Kínverjar hafa verið andvígir hörðum refsiaðgerðum vegna kjarnorkusprengingar Norður-kóreumanna fyrr í vikunni.

Spurningar hafa vaknað um hvort kjarnorkusprengja hafi í raun verið notuð þegar fjölmiðlar greindu frá því í dag að engin merki hefðu fundist um geislavirkni í loftsýnum sem Bandaríkjamenn tóku. Ónafngreindur bandarískur embættismaður segir að á þessu geti verið þrjár skýringar. Námugöngin hafi verið svo kyrfilega lokuð að ekkert geislavirk ryk hafi borist út, sprengjan hafi verið svo lítil að engin geislun hafi borist frá henni eða að Kóreumenn hafi einfaldlega notað venjulegt sprengiefni. Embættismaðurinn segir að á þessari stundu liggi ekki fyrir neinar sannanir fyrir því að Norður-Kórea hafi sprengt kjarnorkusprengju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×