Terry Brown, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins West Ham, hyggst á næstu dögum ræða við tvo hópa um hugsanleg kaup á félaginu, en annar þeirra er íslenskur hópur sem Eggert Magnússon, formaður KSÍ, fer fyrir.
Samkvæmt frétt í breska blaðinu Guardian nemur tilboð Eggerts og félaga um 75 milljónum punda, eða 9,5 milljörðum króna. Í fréttinni kemur fram að ísraelskt fyrirtæki berjist við íslendingana um félagið en ekki kemur fram hversu hátt það tilboð er nákvæmlega, en það er sagt yfir 70 milljónir punda.