Talið er að 30 til 40% af fiskafla sem veiðist á Sri Lanka spillist frá því fiskurinn er veiddur þar til hann er kominn á borð neytenda. Rýrnun gæða fisks er vandamál í fiskiðnaði á Sri Lanka og er það eitt af þeim verkefnum sem fiskiðnaðurinn tekst nú á við.
Nýlega lauk fjögurra daga námskeiði í gæða- og öryggismálum í fiskhöfnum fyrir 35 hafnarstjóra á Sri Lanka. Hafrannsóknarstofnun Sri Lanka og fiskimálaráðuneyti landsins stóðu að námskeiðinu en Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna veittu aðstoð við námskeiðið.