Á fundi sínum með Borys Tarasjúk utanríkisráðherra Úkraínu fjölluðu ráðherrarnir um tvíhliða samskipti og vaxandi viðskipti landanna, auknar fjárfestingar Íslendinga í Úkraínu, Atlanthafsbandalagið, samskiptin við Evrópusambandið og möguleika á auknu samstarfi EFTA og Úkraínu. Þá kynnti Valgerður Sverrisdóttir framboð Íslands til sætis í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Fyrr um morguninn lagði Valgerður Sverrisdóttir blómsveig að minnismerki um fórnarlömb hungursneyðarinnar í Úkraínu veturinn 1932-33, en þann vetur er talið að um sjö milljónir íbúa Úkraínu, eða fjórðungur þjóðarinnar, hafi dáið úr hungri í kjölfar refsiaðgerða Stalíns vegna andstöðu Úkraínumanna við áætlanir hans um samyrkjubúskap.
Ráðherra ávarpaði einnig viðskiptaráðstefnu í Kænugarði, en samhliða opinberu heimsókninni fer ráðherra fyrir viðskiptasendinefnd á vegum Útflutningsráðs. Þar lýsti Valgerður yfir ánægju með vaxandi samvinnu úkraínskra og íslenskra fyrirtækja og fjallaði um mikilvægi þess að stjórnvöld komi á viðskiptasamningum til að greiða fyrirtækjum leið. Greindi ráðherra m.a. frá að tvísköttunarsamningur milli ríkjanna væri á lokastigi og að viðræður væru hafnar um gerð fjárfestingasamnings.