Innlent

Hrikaleg átök í Reykjavík 20.-25. nóvember

Búast má við hrikalegum átökum í borginni dagana 20.-25. nóvember þegar keppnin um sterkasta mann heims fer þar fram. Keppnin í ár er haldin í minningu um Jón Pál Sigmarsson, einn öflugasta kraftajötun Íslendinga, sem lést langt fyrir aldur fram.

Hann vann titilinn sterkasti maður heims fjórum sinnum, jafnoft og Magnús Ver Magnússon, sem kemur að skipulagningu keppninnar nú. Alls munu 24 kraftajötnar mæta til leiks og þar af eru þrír Íslendingar, þeir Benedikt Magnússon, Stefán Sölvi Pétursson og Georg Ögmundsson.

Undanúrslit keppninnar fara fram í kerskála Alcan í Straumsvík 20. nóvember og úrslitin í Reiðhöllinni í Víðidal 24. - 25. nóvember. Sjónvarpsþættir verða gerðir um keppnina sem sýndir verða í 219 löndum og ná til að lágmarki 350 milljóna heimila. Verðlaunagripurinn að þessu sinni er stytta af Jóni Páli heitnum en það er Orkuveita Reykjavíkur sem kostar gerð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×