Erlent

Hamas hikar við árásir á Ísrael

Frá vettangi árásar Ísraela í gærnótt.
Frá vettangi árásar Ísraela í gærnótt. MYND/AP

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ræddi í dag í síma við Khaled Mashaal, hinn útlæga leiðtoga Hamas-samtakanna. Embættismenn segja að þetta sé vísbending um að þeir séu nálægt því að ná samkomulagi um þjóðstjórn.

Þetta samtal er einnig talið benda til þess að Hamas séu hikandi við að standa við þá hótun sína að hefja aftur árásir á Ísrael eftir mannskæða árás Ísraela á íbúðahverfi á Gaza fyrr í vikunni. Það myndi mjög skaða samtökin á alþjóðavettvangi, þar sem þau standa höllum fæti fyrir.

Þótt embættismenn segist bjartsýnir hafa tilraunir til þess að mynda þjóðstjórn hvað eftir annað farið út um þúfur undanfarna mánuði. Mashaal hefur ekki getað fallist á þá kröfu Abbas að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis.

Þar að auki er persónuleg óvinátta milli Abbas og Mashaals eftir að sá síðarnefndi gagnrýndi forsetann í ræðu síðastliðið vor. Síðan hafa þeir ekki talað saman. Það munu hafa verið ráðgjafar Abbas sem hvöttu hann til þess að hringja í Mashaal þar sem þeir telja engar líkur á árangri nema leiðtogarnir byrji aftur að tala saman.

Ekki er vitað hvort Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, var látinn vita af símtalinu fyrir fram. Í gær sleit Haniyeh viðræðum um þjóðstjórn við samningamenn Abbasar eftir árás Ísraela. Viðræðurnar voru þó fljótlega hafnar á nýjan leik.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×