Erlent

Al-Kaída fagnar afsögn Rumsfeld

Abu Ayyub al-Masri.
Abu Ayyub al-Masri. MYND/AP

Í hljóðupptöku sem sögð er af ræðu Abu Hamza al-Muhajir, einnig þekktur sem Abu Ayyub al-Masri, höfuðsmaður al-Kaída hryðjuverkanetsins í Írak, lýsir hann ánægju sinni með afsögn Donalds Rumsfeld, landvarnaráðherra Bandaríkjanna. Í upptökunni segir ennfremur að samtök hans hafi innan sinna vébanda 12.000 manns undir vopnum og 10.000 til viðbótar sem eru reiðubúnir til að taka þátt í baráttunni gegn hernámsliðinu. Al-Masri klykkir svo út með að segja að menn hans muni ekki una sér hvíldar fyrr en Hvíta húsið í Washington hefur verið sprengt í loft upp. Upptakan var sett á vefsíðu sem herskáir múslimar hafa áður notað en ennþá á eftir að staðfesta hvort al-Masri sé raunverulega sá sem talar.

 

Átta manns biðu bana og 38 særðust þegar tvær bílsprengjur sprungu með stuttu millibili við götumarkað í Bagdad, höfuðborg Íraks í morgun. Kveikt var á sprengjunum með fjarstýringu. Talið er að uppreisnarmenn úr hópi súnnía hafi staðið á bak við tilræðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×