Fimm ráðherrar úr röðum Hizbollah-samtakanna og stuðningsflokksins Amal-hreyfingarinnar, hafa sagt sig úr ríkisstjórn Líbanons eftir að viðræður stjórnmálafylkinga Líbanons um valdaskiptingu í landinu fóru út um þúfur í dag. Kröfum Hizbollah-samtakanna um að fá aukinn hlut í stjórn landsins var hafnað og því slitnaði upp úr viðræðunum.
Mennirnir fimm stjórnuðu ráðuneytum utanríkis-, landbúnaðar-, heilbrigðis, orku- og vinnumála en alls eru 24 ráðherrar í ríkisstjórn Fouads Siniora sem nýtur stuðnings Vesturlanda.
Leiðtogar Hizbollah telja sanngjarnt að hreyfingin fái meiri völd eftir að hafa borið hitann og þungann af átökunum við Ísraela í sumar og að lokum hrundið sókn þeirra en á það hafa aðrar fylkingar í landinu ekki vilja sættast.