Viðskipti innlent

Landsbankinn sölutryggir hlut 365 í Wyndeham

Gengið hefur verið frá samkomulagi við Landsbanka Íslands um að sölutryggja 64% eignarhlut 365 hf. í Daybreak Acquisitions Ltd, sem á allan eignarhlut í bresku prentsmiðjunni Wyndeham Press Group.

Í tilkynningu frá 365 segir að fyrir skiptingu Dagsbrúnar hafi Vodafone tekið yfir reksturinn á dreifikerfi Digital Ísland. Áhrif þess á efnahag 365 h.f. eru lækkun á vaxtaberandi skuldum að fjárhæð kr. 650 milljónir og lækkun á skuldum við tengda aðila um krónur 1.400 milljónir.

Þá segir ennfremur að stefnt sé að því að velta fjölmiðla- og afþreyingafyrirtækisins verði á bilinu 12 til 13 milljarða króna á næsta ári og að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði um 1,2 til 1,4 milljarðar króna.

Þá hefur 365 h.f. komist að samkomulagi við Teymi hf. um sölu á hlut sínum í Hands Holding fyrir jafnvirði 600 milljónir króna sem mun verða ráðstafað til að lækka skuldir félagsins. Eignarhlutur 365 h.f. í félaginu verður um 30% eftir söluna.

Að loknum ofangreindum aðgerðum er gert ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir nemi um 8.099 milljónum króna.

Að auki stefnir 365 hf. að því á næstu eina til tveimur árum að selja frá sér 36% eignarhlut í Daybreak Acquisitions sem ekki hefur verið sölutryggður auk þess sem stefnt er að því að því að selja 30% eignarhlut félagsins í Hands Holding. Bókfært verð þessara eigna nemur 5.612 milljónum króna. Félagið mun ráðstafa söluandvirði eignanna til lækkunar skulda, að því er segir í tilkynningu.

Tilkynning frá 365 hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×