Viðskipti innlent

Glitnir spáir hækkun stýrivaxta

Hagstofa Íslands birtir verðbólgutölur í næstu viku. Greiningardeild Glitnir spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,1 prósent á milli mánaða og muni verðbólga mælast 7 prósent. Þá spáir deildin því að Seðlabanki Íslands muni hækka stýrivexti sína um 25 punkta 21. desember næstkomandi en segir það verða endirinn á hækkanaferli bankans.

Greiningardeildin segir Seðlabankann vilja sjá verðbólguna lækka meira enda sé hún lang yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans. Útlit sé fyrir að verðbólgan muni lækka hratt á næstunni og spáir að hún verði 6,6% yfir þetta ár en aðeins 1,6% yfir næsta ár, sem er nokkuð undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Greiningardeild Glitnis bendir í Morgunkorni sínu í dag að tölulegar upplýsingar bendi til að ytra ójafnvægi hagkerfisins sé nokkuð meira en áður hafi verið áætlað og þar með sú verðbólguvá sem í ójafnvæginu felist. Því séu líkur á að Seðlabankinn velji að hækka stýrivexti sina rétt fyrir jól um 25 punkta og fara þeir þá í 14,25%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×