Viðskipti innlent

Samstarf um græna vottun fyrirtækja

Vistvænu samstarfi komið á Sol Squire, framkvæmdastjóri Data Íslandia og Josey Crane, viðskiptastjóri hjá CarbonNeutral, í höfuðstöðvum CarbonNeutral í London.
Vistvænu samstarfi komið á Sol Squire, framkvæmdastjóri Data Íslandia og Josey Crane, viðskiptastjóri hjá CarbonNeutral, í höfuðstöðvum CarbonNeutral í London.

Data Íslandia er í samstarfi við eitt stærsta ráðgjafa- og vottunar-fyrirtæki á Bretlandseyjum í loftslagsmálum, The CarbonNeutral Company. „Umfjöllun um verndun loftslagsins í heiminum er eitt aðalumræðuefnið í heimsfréttunum og eftir fund þeirra í London, hafa fyrirtækin sameinað krafta sína til að beina athygli annarra fyrirtækja að mikilvægi þessa málefnis,“ segir í tilkynningu Data Íslandia.

Tekið er fram að í bresku viðskiptaumhverfi séu gerðar auknar kröfur um umhverfisvottun fyrirtækja og að þau hafi umhverfissjónarmið að leiðarljósi. „Data Íslandia er fyrsta íslenska fyrirtækið sem óskar eftir samstarfi við okkur og er það sönn ánægja að kynna þetta fyrirtæki sem kemur frá landi sem stendur fremst í heimi á sviði endurnýjanlegrar hreinnar orku,“ er haft eftir Josey Crane, viðskiptastjóra hjá CarbonNeutral.

Sol Squire, framkvæmdastjóri Data Íslandia, segir að samstarfið muni auðvelda bæði evrópskum og breskum fyrirtækjum að stunda viðskipti hér. „Vegna þess að græn vottun getur haft úrslitaáhrif á þessum viðskiptamörkuðum,“ segir hann og kveður að með samstarfinu sé verið að laga íslenskt viðskiptaumhverfi að breskum og evrópskum viðmiðum.

Data Íslandia bendir á að gagnamiðstöðvar noti gríðarlegt magn af orku, en samkvæmt lögum og í sumum tilfellum alþjóðalögum þurfi fyrirtæki að vista tiltekin rafræn gögn í mörg ár. „Stórfyrirtæki sjá því hagkvæmni í því að vista gögnin á Íslandi.“ Með því að vista gögn í umhverfi sem byggir á endurnýjanlegri orku væri því dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×