Bláu tjöldin sem undanfarnar kosningar hafa verið hengd fyrir kjörklefa allra kjördeilda í Reykjavík nema einnar hafa nú flest verið tekin niður og hvít og drapplituð tjöld sett í þeirra stað, samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.
Rúnar Þór Þórarinsson hönnuður kærði kosningu til borgarstjórnar í fyrra vegna tjaldanna, þar sem honum þótti skjóta skökku við að mikið væri lagt upp úr því að hylja ýmislegt á kjörstöðum sem þykir geta minnt kjósendur á stjórnmálaflokka, til að mynda græn útgönguljós og rauða depla á glerrennihurðum, en flennistór blá tjöldin fengju að hanga á sínum stað.
Kærunni var vísað frá, en Rúnari þökkuð ábendingin. Í ár hefur verið skipt á um tveimur þriðju bláu tjaldanna en hvít og drapplituð sett í staðinn. Þó munu einhver þeirra bláu hafa verið lánuð til kjördeilda í nágrannasveitarfélögum.
Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, segist ekki telja að litir sem sjást á kjörstað hafi áhrif á atkvæði kjósenda.
„En það er ekki spurning í mínum huga að þessi litur geymir skilaboð og mín skoðun er að einhverjir embættismenn geri þetta viljandi til að ögra. Á móti kemur þó að það er auðvelt að ganga með paranoju. En auðvitað fyndist mér lágmarksvirðing við kjósendur að hafa litinn hlutlausan.“ - sh