Sænskur vísindamaður hefur fundið út hvernig hægt er að rækta jarðarber sem valda ekki ofnæmi. Lífefnafræðingurinn Rikard Alm hefur skrifað doktorsritgerð um þetta og segist hafa verið í sambandi við áhugasama ræktendur. Það má því búast við að ofnæmisfrí jarðarber líti dagsins ljós á næstunni.
Í jarðarberjum eru prótein sem minna á birkifrjókorn, að sögn vefútgáfu sænska blaðsins Expressen, og þess vegna fá þeir sem hafa ofnæmi fyrir birkifrjókornum oft kláða í góminn og bólgnar varir þegar þeir borða jarðarber.