Viðskipti erlent

Kínverska vísitalan slær met

Hlutabréfakaup almennings hafa þrýst upp gengi hlutabréfa í Kína.
Hlutabréfakaup almennings hafa þrýst upp gengi hlutabréfa í Kína. MYND/AFP

CSI-300 hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína náði methæðum á mánudag þegar gengi hennar hækkaði um 2,6 prósent og endaði í 4.090,57 stigum. Þarna rauf vísitalan 4.000 stiga múrinn í fyrsta sinn.

Gengi bréfa í Kína hefur verið á hraðri siglingu upp á við síðustu misserin og þrefaldast í verði frá áramótunum 2006. Það sem af er árs hefur gengið tvöfaldast.

Mikil eftirspurn er eftir hlutabréfum í Kína. Markaðurinn er sérstæður að því leyti að almenningur, jafnt sem háskólastúdentar sem eldri borgarar, virðist fremur kjósa að verja sparifé sínu í hlutabréf en að leggja inn á bankabók.

Alan Greenspan, fyrrum aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, varaði á dögunum við að leiðrétting á gengi hlutabréfa í Kína væri yfirvofandi og gæti haft áhrif á helstu fjármálamörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×