Viðskipti innlent

Deloitte styrkir göngu Mörtu

Á sumardaginn fyrsta gekk hátt í tvö hundruð manna hópur starfsfólks Deloitte á Snæfellsjökul til styrktar Mörtu Guðmundsdóttur.
Á sumardaginn fyrsta gekk hátt í tvö hundruð manna hópur starfsfólks Deloitte á Snæfellsjökul til styrktar Mörtu Guðmundsdóttur.

Síðastliðinn sunnudag lagði Marta Guðmundsdóttir upp í 600 km göngu þvert yfir Grænlandsjökul. Markmiðið með göngunni er að safna fé í baráttuna gegn brjóstakrabbameini og um leið vekja konur til umhugsunar um mikilvægi þess að fara reglulega í krabbameinsskoðun. Sjálf greindist Marta með brjóstakrabbamein fyrir um tveimur árum og hefur nú lokið erfiðri meðferð.

Deloitte styrkir Krabbameinsfélagið og Mörtu til fararinnar. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að einn helsti hvati fyrirtækisins fyrir þessum stuðningi sé að nýverið greindust tveir starfsmenn Deloitte með krabbamein. Hafi starfsfólk fyrirtækisins viljað sýna þeim stuðning í verki.

Á sumardaginn fyrsta í síðasta mánuði gekk hátt í tvö hundruð manna hópur starfsfólks Deloitte ásamt fleirum á Snæfells­jökul til styrktar Mörtu. Marta tók þátt í göngunni á Snæfellsjökul og var það liður í undirbúningi hennar fyrir gönguna miklu.

Meðan á göngunni Mörtu stendur verða seld póstkort til styrktar Krabbameinsfélaginu. Þau mun Marta undirrita og póstleggja í Tassilaq þegar hún kemur niður af jöklinum. Hvert kort kostar 1.000 krónur og renna tekjurnar til rannsókna á brjóstakrabbameini. Kortin eru seld á vef Krabbameinsfélagsins, www.krabbameinsfelagid.is og á www.deloitte.is. Hægt er að fylgjast með göngu Mörtu á slóðinni http://martag.blog.is/blog/martag/






Fleiri fréttir

Sjá meira


×