Viðskipti innlent

Fleiri samningar í pípum FME

Samstarfsaðilar í eftirliti. Liu Mingkang, formaður kínverska bankaeftirlitsins, og Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME.
Samstarfsaðilar í eftirliti. Liu Mingkang, formaður kínverska bankaeftirlitsins, og Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME.

Stóraukin starfsemi íslenskra banka á erlendri grundu hefur orðið til þess að breyta störfum starfsfólks Fjármálaeftirlitsins töluvert. Starfssvið eftirlitsins víkkar út í samræmi við útrás þeirra. FME ber eftirlitsábyrgð á starfsemi útibúa íslensku bankanna að langstærstu leyti á erlendri grundu.

Á mánudaginn skrifuðu Fjármálaeftirlitið og kínverska bankaeftirlitið undir samstarfssamning sín á milli. Forsvarsmenn kínverska eftirlitsins voru við það tilefni viðstaddir morgunverðarfund um útrás íslenskra fjármálafyrirtækja til Kína sem FME stóð fyrir.

Tilefni samningsins nú er að Glitnir banki er að hefja sókn sína inn á kínverska markaðinn. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, sagði á fundinum að FME hefði bæði sýnt hugkvæmni og frumkvæði í samstarfi við bankana. „Við erum nýbúin að setja upp skrifstofu í Kína. Að Fjármálaeftirlitið skuli þegar hafa gert þennan samning er okkur mjög mikilvægt. Þetta mun auðvelda okkur frekari sókn inn á Kínamarkað."

Samningurinn sem um ræðir snýst um samstarf í eftirliti beggja eftirlitsaðila. Hann tekur til almenns eftirlits og samstarfs milli eftirlitsaðilanna í hverju landi. Svipaður samningur er þegar í gildi við fjármálaeftirlitið á Mön. Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir fleiri samninga á borð við þessa í pípunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×