Josh Homme, forsprakki Queens of the Stone Age, segir að The Rolling Stones leggi of mikla áherslu á gömul lög á tónleikum sínum. Þrátt fyrir að Queens of the Stone Age hafi hitað upp fyrir Stones á tónleikum telur Homme að rokkhundarnir þurfi að taka sig saman í andlitinu.
„Við spiluðum með þeim og ég hafði mjög gaman af því. En þeir gefa bara út plötur til að minna fólk á að þeir séu að fara í tónleikaferð,“ sagði Homme. „Þeir fara aðeins í tónleikaferðir til að fólk geti heyrt gömlu lögin þeirra. Ef þróunin væri þannig hjá okkur myndi ég ekki hika við að taka gott hlé.“