Fjárfestingafélagið Gnúpur, félag þeirra Kristins Björnssonar, Magnúsar Kristinssonar og Þórðar Más Jóhannessonar, fór yfir fimm prósenta hlut í Kaupþingi í gær. Þetta gerist skömmu eftir að félagið jók hlut sinn í FL Group upp fyrir tuttugu prósent.
Miðað við síðasta gengi Kaupþings, 1.108 krónur á hlut, er 5,19 prósenta hlutur metinn á rúma 42,5 milljarða króna.
„Við teljum að Kaupþing verði í lykilstöðu í frekari útrás og uppbyggingu íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis. Þeir hafa sterkt stjórnendateymi sem hefur vakið víða athygli. Í því viljum við fjárfesta," segir Þórður Már Jóhannesson, forstjóri Gnúps. Ekki hefur komið til tals að fjárfesta meira í Kaupþingi að sögn Þórðar Más.
Þessi kaup gera Gnúp að þriðja stærsta hluthafanum í Kaupþingi á eftir Existu (22,8%) og óstofnuðu hollensku dótturfélagi Kjalars hf. (9,9%).
Gnúpverjar hefur verið að auka hlut sinn í Kaupþingi á árinu, einkum það sem af er júní. Kaupin í gær námu 3.663 milljónum króna, um 0,45 prósent af heildarhlutafé Kaupþings. Um áramótin átti félagið um 2,2 prósent í bankanum.
Gnúpur er jafnframt stærsti hluthafinn í FL Group með rúman tuttugu prósenta hlut. Samanlagt eru eignarhlutir félagsins í FL og Kaupþingi metnir á 90 milljarða króna. Gnúpur á einnig um 1.1 prósent í Straumi-Burðarási í síðustu viku.