Rokksveitin Mínus heldur tónleika á Grand Rokk annað kvöld, laugardaginn 14. júlí. Þetta verða fyrstu tónleikarnir þar sem sveitin er í aðalhlutverki síðan mannabreytingar urðu fyrir skemmstu. Eins og kom fram í fjölmiðlum sögðu Frosti Logason gítarleikari og Þröstur Jónsson bassaleikari skilið við Mínus. Í staðinn var fenginn bassaleikarinn Sigurður Oddsson úr Future Future.
Að sögn Björns Stefánssonar trommuleikara ætlar Mínus á þessum tónleikum að leika þverskurð af efni hljómsveitarinnar á níu ára ferli hennar. Sannarlega forvitnilegir tónleikar. Húsið opnar klukkan 23 og það kostar þúsundkall inn. Plötusnúðurinn Frosti Gringo hitar upp.