Heima, mynd um tónleikaferð hljómsveitarinnar Sigur Rósar um Ísland, verður frumsýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, 27. september næstkomandi. Þetta kemur fram á Soundgenerator.com.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum verður myndin frumsýnd í Bretlandi og víðar hinn 5. nóvember. Samfara frumsýningu Heima verður gefinn út geisladiskurinn Hvarf heim sem inniheldur óútgefin lög með sveitinni og lög í órafmögnuðum útgáfum. Á fyrrnefndri vefsíðu kemur fram að um tvöfalda geislaplötu verði að ræða. Þá segir einnig að hægt verði að kaupa Heima-myndina á tveimur DVD-diskum auk þess sem sérstakri útgáfu fylgi 104 blaðsíðna bók með myndum af sveitinni á tónleikum.