Lið stærðfræðinga í Bandaríkjunum hefur leyst 120 ára gamla stærðfræðiráðgátu. Fjöldi vísindamanna skilur samt sem áður ekki um hvað hún snýst.
Lausnin er svo flókin að handskrifuðu niðurstöðurnar myndu þekja alla Manhattan eyju í New York. Það jafngildir plássi á hörðum diski fyrir 45 daga samfellda spilun tónlistar á MP3 formi.
Fréttastofa Sky greinir frá því að 18 stærðfræðingar hafi í samvinnu við tölvuvísindamann unnið að því að leysa vandamálið „Lie group E8".
Lie grúppurnar eru uppfinning 19. aldar stærðfræðingsins og Norðmannsins Sophus Lie. Grúppurnar þróaði hann við rannsókn á samhverfum, hjúpum og fræðilegum útreikningum.
E8 grúppan er frá árinu 1887. Hún er sú flóknasta í hópnum, með 248 víddum og var lengi vel talin óleysanleg.
Stærðfræðistofnun Bandaríkjanna stóð að verkefni stærðfræðinganna. Það tók þá fjögur ár að leysa gátuna. Niðurstöðurnar voru kynntar í Tæknistofnun Massachusettsríkis.
Sigurður Helgason prófessor og einn helsti stærðfræðingur í heimi er einmitt prófessor í Boston Massachusetts. Fréttastofa náði ekki tali af Sigurði vegna málsins.