Innlent

Samfylkingin ætlar að breyta eftirlaunalögum

Samfylkingin ætlar að breyta lögum um eftirlaun ráðamanna komist flokkurinn í ríkisstjórn að loknum kosningum þannig að meira jafnræði komist á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Formaður flokksins sagði í setningarræðu að eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar yrði að taka Ísland af lista hinna viljugu þjóða.

Landsfundur Samfylkingarinnar var settur í gær og stendur fram á sunnudag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, sagði meðal annars í setningarávarpi sínu að í landinu hefðu risið harðari deilur en dæmi væru um í langan tíma, deilur þar sem stjórnarflokkarnir væru í aðalhlutverki. Þar nefndi hún fjölmiðlamálið, olíusamráðið, Baugsmálið, einkavæðinguna og nú síðast auðlindamálið.

Hún sagði að tvö mál væru eins og fleinn í holdi þjóðarinnar eftir stjórnartíð ríkisstjórnarinnar. „Annars vegar er Íraksmálið sem var siðlaus ákvörðun tekin í óðagoti. Samfylkingin hefur þá staðföstu skoðun að það eigi að verða verk nýrrar ríkisstjórnar að taka Ísland út af lista hinna vígfúsu þjóða," sagði Ingibjörg.

Og hins vegar nefndi hún eftirlaunafrumvarpið.„Í árslok 2003 var friður rofinn í íslensku samfélagi með lagasetningu sem færði ráðamönnum ríkisins eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist. Kæru félagar. Ég var andsnúinn þessu frá upphafi og ég mun beita mér fyrir því að hinum umdeildu lögum verði breytt og meira jafnræði komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings," sagði Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×