Innlent

Þrír háskólar vinni að vottun jafnra launa

MYND/Stöð 2

Starfshópur á vegum félagsmálaráðherra sem falið var að undirbúa vottun jafnra launa hér á landi leggur til að komið verði á laggirnir samvinnuverkefni við Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík með það að markmiði að fá fyrirtæki til að afla sér vottunar á því að unnið sé með markvissum hætti að launajafnrétti kynjanna.

Félagsmálaráðherra kynnti tillögur starfshópsins á blaðamannafundi í dag. Í þeim kemur einnig fram að sérstakur aðili sjái um vottunina en að framkvæmd verkefnisins verði í höndum skólanna þriggja. Vottunarnefnd verði starfandi fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig og fyrirtækið tilnefni fulltrúa sinn í nefndina hverju sinni.

Öll fyrirtæki, bæði opinber og einkafyrirtæki, geta sótt um vottunina og verða stærstu fyrirtækin og stofanirnar sérstaklega hvött til að vera með í verkefninu. Þurfa fyrirtækin að sýna fram á að unnið sé markvisst að launajafnrétti og mun vottunaraðili fylgjast með hvernig gengur. Verða fyrirtækjum gefin tiltekin stig og þurfa þau að hafa náð ákveðnum stigafjölda til að fá vottun jafnra launa.

Stefnt er að því að einn þeirrra þátta sem mynda Jafnréttiskennitöluna, sem er verkefni hjá Rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála á Bifröst, verði hvort fyrirtækið hafi aflað sér vottunar á launajafnrétt.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra styður hugmyndir starfshópsins eindregið og vill að tillögunum verði hrint í framkvæmd sem fyrst. Fjölmörg fyrirtæki hafi lýst yfir áhuga á að fá jafnlaunavottun, þar á meðal Deloitte á Íslandi og Háskólinn í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×