Landsbankinn er sagður vera á meðal þeirra sem hafa lagt fram yfirtökutilboð í breska verðbréfafyrirtækið Bridgewell Group. Á meðal annarra bjóðenda er hollenski fjárfestingabankinn Fortis, sem rekur starfsemi víða um Evrópu.
Breska blaðið Financial Times segir í dag að engar fjárhæðir hafi verið nefndar á nafn og séu stjórnendur Bridgewell að skoða bjóðendurna, sem séu nokkrir. Hafi Jim Renwick, forstjóri Bridgewell, og Darren Ellis, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, komið hingað til lands í gær til fundar með Landsbankamönnum.