Innlent

Ætla að kolefnisjafna ríkisbifreiðar og flugferðir

MYND/GVA

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að kolefnisjafna allar bifreiðar stjórarráðsins og sömuleiðis flugferðir ríkisstarfsmanna bæði innanlands og utan frá og með næstu áramótum.

Með kolefnisjöfnun er átt við að tré verði gróðursett til að jafna þá losun af koldíoxíð sem bílar og flugvélar á ferð láta frá sér. Fram kemur á vef forsætisráðuneytisins að ákvörðunin komi í framhaldi af því að í gær undirritaði forsætisráðherra ásamt stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og forstjóra Kaupþings samkomulag um stuðning við kolefnissjóðinn Kolvið.

Kolviður var stofnaður að frumkvæði Skógræktarfélags Íslands og Landverndar en hlutverk sjóðsins er að gera landsmönnum kleift að jafna kolefnislosun sína vegna samgangna með því að beita skógrækt sem vopni í baráttunni.

Bent er á að á heimasíðu Kolviðar sé á einfaldan hátt hægt að reikna út hvað hver bíll losar mikið af koldíoxíði á ári og hvað þarf mörg tré til að umbreyta koldíoxíðinu í trjávöxt og súrefni. Þannig gefist landsmönnum tækifæri til þess að greiða andvirði þeirra trjáa sem þarf til þess að jafna kolefnismengun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×