Talsmenn ítalska knattspyrnusambandsins sögðu það ekki koma sér á óvart í dag þegar Ítalir gripu í tómt þegar tilkynnt var hver hreppti Evrópumót landsliða í knattspyrnu árið 2012. Það kom í hlut Pólverja og Úkraínumanna að halda mótið, en áföll sem riðið hafa yfir ítalska knattspyrnu á síðasta ári gerðu það að verkum að þar í landi voru menn ekki sérlega bjartsýnir á að fá að halda mótið.
"Knattspyrnusamband Evrópu tók ákvörðun byggða á pólitískum grunni og þeir hafa með þessu gefið tveimur löndum tækifæri sem eru nýkomin inn í evrópsku knattspyrnufjölskylduna. Við rum vissulega vonsviknir, en við ætlum að óska sigurvegurum til hamingju með að hreppa hnossið og halda áfram að koma á reglu í ítölskum fótbolta. Það að við skulum ekki hafa fengið þessa keppni breytir engu um það að mikil vinna er framundan í landinu til að byggja knattspyrnuna upp frá grunni í landinu," sagði Giovanna Melandri, íþróttaráðherra Ítala.