Erlent

Íhaldsflokkurinn sigraði

Verkamannaflokkurinn tapaði umtalsverðu fylgi þegar kosið var til sveitarstjórna í Bretlandi og til velska og skoska þingsins í gær en íhaldsmönnum vegnaði vel. Framkvæmd kosninganna í Skotlandi virðist hafa verið mjög ábótavant.

Í raun var um þrískiptar kosningar að ræða, þingkosningar í Wales og Skotlandi og sveitastjórnarkosningar víða um Bretland. Endanleg úrslit verða ekki birt fyrr en síðar í dag en útlit er fyrir að á landsvísu hafi Íhaldsflokkurinn fengið 41 prósent atkvæða, Verkamannaflokkurinn 27 prósent og frjálslyndir demókratar 26 prósent. Í Wales er Verkamannaflokkurinn áfram stærstur en tapar umtalsverðu fylgi til íhaldsmanna og þjóðernissinna. Í Skotlandi eru teikn á lofti um að skoski þjóðarflokkurinn sé orðinn stærsti flokkurinn en hann hefur sjálfstæði Skotlands á stefnuskránni. Mikill vandræðagangur hefur annars einkennt kosningarnar þar. Kjörseðlarnir eru afar flóknir þar sem bæði er verið að kjósa til þings og sveitarstjórna og því er talið að allt að 100.000 kjörseðlar séu ógildir. Rannsókn á framkvæmdinni hefur verið fyrirskipað og jafnvel getur komið til þess að kjósa þurfi aftur í landinu. Þetta eru síðustu kosningar Verkamannaflokksins undir forystu Tony Blair og óhætt er að fullyrða að hann hefði viljað kveðja á annan hátt. Reiknað er með að hann láti af völdum nú í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×