Innlent

Ríkisstjórnin naumlega fallin samkvæmt könnun Capacent

MYND/GVA

Ríkisstjórnin er naumlega fallin samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Eftir því sem fram kemur á vef Morgunblaðsins eykst fylgi Framsóknar og Samfylkingarinnar frá könnun sem birt var í gær en fylgi Sjálfstæðisflokksins, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Frjálslynda flokksins minnkar.

Samkvæmt nýju könnuninni ætla 38,4 prósent að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem 3,5 prósentustigum minna en í gær. Samkvæmt þessu fengi flokkurinn 25 þingmenn en litlu munar á 26. þingmanni flokksins og 11. þingmanni VG.

Þá segjast rúm 27 prósent ætla að kjósa Samfylkinguna og fengi flokkurinn 18 þingmenn miðað við það. Fylgi Samfylkingarinnar mældist 25,1 prósent í gær. Fylgi Vinstri - grænna mælist nú 16,5 prósent en mældist prósentustigi meira í gær. Fengi flokkurinn ellefu þingmenn eins og í gær.

Þá fer fylgi Framsóknarflokksins úr 7,6 prósentum í 9,9 og fær flokkurinn sex þingmenn. Enn fremur fer fylgi Frjáslynda flokksins úr sex prósentum í 5,3 en flokkurinn fær enn þrjá þingmenn. Loks mælist fylgi Íslandshreyfingarinnar tæp þrjú prósent en það var tvö prósent í gær. Flokkurinn nær ekki inn manni.

Könnun Capacent Gallup leiðir enn fremur í ljós að 49,7 prósent styðja ríkisstjórnina en 50,3 ekki. Úrtakið í könnuninni var 1150 manns, 18 ára og eldri. Nettósvarhlutfall var 63,7 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×