Tenniskappinn Roger Federer er í skýjunum með að hafa yfirstigið þá hindrun sem Rafael Nadal er fyrir hann á leirvelli, en fyrr í dag hafði Svisslendingurinn betur í úrslitaleik meistaramótsins í Hamborg. Federer kveðst ekki geta beðið eftir að hefja leik á Opna franska, þar sem leikið er á leir-yfirborði, en það hefst næsta sunnudag.
“Þetta var mikil hindrun sem ég náði að komast yfir í dag,” sagði Federer á blaðamannafundi eftir úrslitaviðureignina í dag. Fram að henni hafði hinn spænski Nadal unnið 81 leik í röð á leir, en síðast tapaði hann á því yfirborði í apríl 2005. Nadal hafði meðal annars unnið Federer í síðustu fimm skiptin sem þeir félagar hafa mæst á leir.
“Það verður áhugavert að sjá hvernig við báðir bregðumst við þessum úrslitum á Opna franska,” sagði Federer, en hann hefur unnið 10 stórmót á ferlinum, þó aldrei það Opna franska. Þar hefur Nadal borið sigur úr bítum síðustu tvö ár.
“Sigurinn er auðvitað ákveðinn áfangi en fyrir mér er mikilvægast að vera byrjaður að spila vel á ný. Mér líður mjög vel og ég hlakka mikið til mótsins í Frakklandi. Ég get ekki beðið.”