Greiningardeild Landsbankans segir nýjustu hagvísa benda til að töluvert meiri verðbólguþrýstingur sé í hagkerfinu og gerir ráð fyrir 4,1 prósents verðbólgu á árinu öllu.
Deildin segir í Vegvísi sínum í dag að í spá deildarinnar við upphaf árs hafi verið gert ráð fyrir mjög lítilli verðbólgu. Það hafi ekki gengið eftir vegna verðbólguþrýstingsins.
Deildin segir að spáin nú byggi á því að smám saman komist jafnvægi í þjóðarbúskapinn og verði launaþróun mun hóflegri en upp á síðkastið, eða um 6,5 próent á ári að meðaltali næstu tvö ár.
Þá segir greiningardeild Landsbankans að gengi krónunnar muni að líkindum haldast sterkt á þessu og næsta ári en að því loknu muni það lækka á nýjan leik.