Fitch Ratings hefur staðfest lánshæfiseinkunnir Straums-Burðaráss
fjárfestingabanka hf. Matsfyrirtækið gefur bankanum langtímaeinkunnina BBB-, skammtímaeinkunnina F3, óháðu einkunnina C/D og stuðningseinkunn 3 og segir horfur stöðugar.
Í tilkynningu frá Kauphöll Íslands kemur fram, að staðfestingin komi í kjölfar tilkynningar Straums-Burðaráss um kaup á 62 prósenta hlut í finnska bankanum eQ og yfirtökutilboðs í hann.
Fitch segir kaupin í takt við markmið Straums-Burðaráss að verða
leiðandi Norrænn fjárfestingabanki. Passi eQ vel við starfsemi Straums-Burðaráss á sviði fyrirtækjaráðgjafar og miðlunar á
Norðurlöndum. Þá bæti kaupin eignastýringu við þjónustuframboð Straums-Burðaráss en eQ er leiðandi í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Þar sem þjónusta eQ skapar fyrst og fremst þóknunartekjur munu kaupin tryggja enn frekar vöxt stöðugra tekjustofna jjá Straumi-Burðarási, að sögn Fitch Ratings.