Afkoma ríkissjóðs var umfram áætlanir fjárlaga á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 36,7 milljarða króna á tímabilinu, sem er um 12,4 milljörðum meira en í fyrra. Hagstæða afkomu má rekja til aukinna tekna sem voru 149 ma.kr. samanborið við 120 milljarða samkvæmt fjárlögum.
Heildargjöld ríkissjóðs á tímabilinu námu 113,9 milljörðum króna sem er um tveimur milljörðum minna en gert var ráð fyrir í áætlunum fjárlaga
Innheimtar tekjur námu 149 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins en það er rúmum 24 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra. Skattar á vöru og þjónustu, neysluskattar, námu 62 milljörðum. Það er níu prósenta aukning að raunvirði frá síðasta ári.
Greiningardeild Kaupþings segir í Hálffimmfréttum sínum í dag að það vekji athygli að innheimtar tekjur neysluskatta eru að aukast þrátt fyrir skattalækkanir sem tóku gildi í byrjun mars á þessu ári. Virðist því enn vera töluverður vöxtur í neyslu heimila og nýjustu vísbendingar virðist frekar benda til þess að vöxturinn sé að taka við sér á ný fremur en að hægja sé á neyslugleði heimila, að sögn greiningardeildar Kaupþings.