Fjármálafyrirtækið Milestone hagnaðist um 27,2 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 1,9 milljarða á sama tíma fyrir ári. Milestone seldi 13 prósenta hlut í Glitni í byrjun apríl fyrir 54 milljarða króna. Félagið og tengdir aðilar eiga enn um sjö prósent í bankanum.
Rekstrartekjur Milestone námu 9,9 milljörðum króna en fjárfestingatekjur 36,9 milljörðum.
Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli nam 160,1 prósentum á fyrstu sex mánuðum ársins og nam eigið fé 74,1 milljarði króna í lok júní.
Í uppgjöri Milestone kemur sömuleiðis fram að á tímabilinu hafi félagið innleyst góðan hagnað á hlut sínum í bresku matvöruverslanakeðjunni Iceland auk þess sem Sjóvá, dótturfélag Milestone, skilaði 6,3 milljarða króna hagnaði á fyrri helmingi ársins.