Er nýjasta mynd Dirty Sanchez hópsins svo ógeðfeld að nauðsynlegt er að hafa ælupoka sér við hlið þegar horft er á hana? Það finnst framleiðendunum því næsta DVD útgáfa verður í ælupoka í hillum verslana.
Pokinn á að undirstrika að jafnvel framleiðendurnir óttast að áhorfendur verði fárveikir á því að horfa á myndina. Hugmyndin kom úr myndinni sjálfri því í einu atriðinu hvetja drengirnir áhorfendur til þess að ná sér í ælupoka.
Dirty Sanchez hópurinn hefur sýnt prakkarastrik í sjónvarpsþætti á evrópsku MTV sjónvarpsstöðinni sem er ekki ósvipaður Jackass sem Johnny Knoxville fer fyrir.
Í myndinni ferðast drengirnir um heiminn og framkvæma áhættuatriði. Í einu slíku sannfæra þeir mann um það að hann muni setja heimsmet með því að láta skjóta sig með 100 paintball kúlum. Eftir á viðurkenna þeir að þeir hafi verið að bulla í honum.