Viðskipti innlent

Verðmat á AMR lækkar

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, sem er næststærsti hluthafinn í AMR, móðurfélagi bandaríska flugfélagsins AMerican Airlines.
Hannes Smárason, forstjóri FL Group, sem er næststærsti hluthafinn í AMR, móðurfélagi bandaríska flugfélagsins AMerican Airlines. Mynd/GVA

Bandarískur greinandi mælir með því í nýju verðmati á bandaríska flugrekstrarfélaginu AMR, móðurfélagi American Airlines, stærsta flugfélagi Bandaríkjanna, að fjárfestar bæti við eignasafn sitt í félaginu. Þetta er lækkun á verðmati félagsins en í fyrri spá var mælt með kaupum á bréfunum.

FL Group er næststærsti hluthafinn í AMR með rúman níu prósenta hlut. Það hefur þrýst á stjórn félagsins að gera nokkrar breytingar á rekstrinum með það fyrir augum að gera eignasafn þess aðgengilegra fyrir augum greinenda og auka virði félagsins.

Á meðal þess sem FL Group mælti með í bréfi sem það sendi stjórn AMR í síðasta mánuði er að skilja vildarklúbb félagsins frá rekstrinum. Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri FL Group, sagði í samtali við Markaðinn í vikunni, að þrýstingurinn á stjórn AMR væri að skila sér enda væru fleiri leiðir í skoðun sem auka ætti virði bandaríska félagsins.

Það er bandaríska verðbréfafyrirtækið Calyon Securities sem lækkaði verðmatið, að sögn fréttastofunnar Associated Press, sem telur til að AMR muni standa frammi fyrir harðri samkeppni á næsta ári, ekki síst frá flugfélaginu Delta og Air France-KLM.

Gengi bréfa í AMR hefur lækkað talsvert á árinu. Það fór hæst í rúma 40 dali á hlut í byrjun árs en fór lægst í 20,28 dali seint í september. Það hefur hækkað lítillega síðan þá. Gengið féll um tæp 3,6 prósent í gær í kjölfar skells á bandarískum hlutabréfamarkaði og stendum nú í 23,16 dölum á hlut.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×