Breski hnefaleikarinn Ricky Hatton er nú kominn með sjálfstraustið í botn fyrir risabardaga sinn gegn Floyd Mayweather í Las Vegas á laugardagskvöldið. Hann lofar nú að rota Bandaríkjamanninn kjaftfora.
"Þessi bardagi er mér allt því hann stendur fyrir allt sem ég hef ætlað mér á ferlinum. Ég mun að sjálfssögðu leita að rothögginu eins og ég geri alltaf en hugarfar mitt hefur verið að breytast á æfingunum undanfarið. Hérna áður gerði ég mér vonir um að ná að vinna Mayweather, en núna er ég kominn með meira sjálfstraust - núna ætla ég að rota hann," sagði Hatton.
Hann er ekki frá því að Bandaríkjamennirnir séu að sofna á verðinum. "Það er búið að afskrifa mig í Bandaríkjunum og þannig vil ég hafa það. Það er ekki nokkur einasti maður þar sem hefur trú á því að ég vinni og það verður því enn sætari tilfinning að vinna."
Bardaginn verður sýndur beint á Sýn aðfararnótt sunnudagsins.