Gengi bréfa í færeyska flugfélaginu Atlantic Airways hækkaði um 0,59 prósent í Kauphöll Íslands í dag. Þetta er jafnframt annar dagurinn sem hluthafar sjá hækkun á gengi þess síðan viðskipti hófust með bréfin hér á landi á mánudag. Það er nú 2,1 prósenti undir upphafsgengi.
Gengi færeyska bankans Föroya banka lækkaði á sama tíma um 2,73 prósent. Þetta er annar dagurinn í röð sem dregur úr markaðsverðmæti bankans. Landar Færeyinganna hjá olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum lækkaði mesta skráðra félaga, eða um 3,1 prósent.
Að öðru leyti var þróunin í Kauphöllinni með svipuðu móti og í Evrópu í dag en gengi bréfa í fjármálafyrirtækjum lækkaði nokkuð.
Mest hækkaði hins vegar gengi bréfa í Alfesca, eða um 1,18 prósent. Gengi bréfa í Eik banka, Century Aluminum og 365 hækkaði sömuleiðis, en minna.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,88 prósent eftir daginn og stendur vísitalan í 6.466 stigum sem merkir að hún hefur einungis hækkað um 0,87 prósent á árinu öllu.