„Vatnið er komið til að vera. Þetta er ekki lengur spurning um hvort heldur hversu stórt það verður,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, sem selur átappað vatn á flöskum undir merkjum Icelandic Glacial úti um allan heim.
Rætt var við Jón í bandaríska vefritinu TheStreet.com á dögunum í tengslum við aukna vatnsneyslu vestanhafs samhliða minnkandi neyslu á gosdrykkjum og kolsýrðum drykkjum. Þar kemur meðal annars fram að Icelandic Glacial sé tiltölulega lítill aðili á bandarískum markaði en stefni hraðbyr á aukna markaðshlutdeild þar í landi með samstarfi við drykkjavörurisann Anheuser Busch.
Í nýlegu fréttabréfi Icelandic Water Holdings kemur fram að stefnt sé að því að hafa vatnið úr Ölfusinu í hillum verslana í öllum ríkjum Bandaríkjanna 1. maí næstkomandi. Það er á áætlun og starfsfólk, bæði fyrirtækis Jóns og sonar hans og Anheuser Busch, á fullu að ná markmiðinu, líkt og segir í fréttabréfinu.
- jab