Viðskipti innlent

Sjófrystingin verðminni

Ísað á bryggjunni Verðmæti afla sem fluttur er óunninn úr landi hefur aukist mikið milli ára. Verðmæti sjófrystra afurða dregst nokkuð saman.  Markaðurinn/GVA
Ísað á bryggjunni Verðmæti afla sem fluttur er óunninn úr landi hefur aukist mikið milli ára. Verðmæti sjófrystra afurða dregst nokkuð saman. Markaðurinn/GVA

Aflaverðmæti sjófrystra afurða í fyrra nam tæpum 25 milljörðum króna í fyrra og dróst saman um tæplega fjögur prósent, miðað við árið á undan, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar.

Ríflega þrettán prósenta aukning varð á verðmæti afla sem seldur er beint til vinnslu hér. Hann nam 32 milljörðum í fyrra. Verðmæti afla sem seldur var á markaði til vinnslu innanlands jókst um fimm og hálft prósent og nam tæpum þrettán milljörðum. Verðmæti afla sem fluttur er óunninn úr landi jókst um næstum sjö prósent milli ára og nam átta og hálfum milljarði króna.

Aflaverðmæti íslenskra skipa í heild nam 80 milljörðum króna á árinu 2007, samanborið við 76,2 milljarða á árinu 2006. Aflaverðmæti hefur aukist um 3,9 milljarða, sem nemur ríflega fimm prósentum milli ára.

Verðmæti botnfisks nam ríflega 60 milljörðum króna í fyrra og jókst um tæp fimm prósent milli ára. Þorskaflinn var tæplega 30 milljarða króna virði og jókst um tæp 7 prósent. Aflaverðmæti ýsu jókst um næstum þriðjung milli ára og var 14,5 milljarðar króna í fyrra. Verðmæti uppsjávarafla jókst um 15,5 prósent og nam fjórtán og hálfum milljarði króna. Þar munar mestu um loðnuna.

Hins vegar dróst verðmæti karfa saman um ríflega ellefu prósent og nam tæpum sex milljörðum króna. Svipaða sögu er að segja af ufsanum. Verðmæti hans dróst saman um tæplega tíu prósent milli ára. Sama er um síldina að segja. Aflaverðmæti flatfisks dróst saman um næstum fimmtung. Aflaverðmæti rækju dróst einnig saman, um ríflega fimmtung. - ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×