Viðskipti innlent

Traust og hreinskilni mikilvægt í umrótinu

Eric Weber.
Eric Weber. Markaðurinn/Vilhelm

„Hræringar á fjármálamörkuðum reyna á stjórnendur og undir­strikar mikilvægi þess að sýna hreinskilni og fela ekkert fyrir hluthöfum," segir dr. Eric Weber, aðstoðarskólastjóri IESE-viðskiptaháskólans í Barcelona á Spáni. Skólinn hefur verið í efsta sæti á lista Financial Times yfir bestu viðskiptaháskóla Evrópu undanfarin fimm ár.

Háskólinn í Reykjavík og IESE hefja í apríl samstarf um nám fyrir æðstu stjórnendur íslenskra fyrirtækja, sem kallast AMP (Advanced Management Program), og fer það fram bæði í Reykjavík og í Barcelona. Weber kennir í náminu auk annarra erlendra kennara.

Námið tekur hálft ár en síðasta fjórðungi þess lýkur í Miðjarðar­hafsloftslagi við IESE-viðskiptaháskólann í Barcelona.

Weber segir að vandlega verði valið úr röðum umsækjenda. „Hópurinn þarf að vera þannig samsettur að einstaklingar innan hans geti lært hver af öðrum. Því þurfa þeir að hafa reynslu til að miðla af," segir hann. Þó sé ekki loku fyrir það skotið að yngri einstaklingar geti sest á skólabekkinn.

Í náminu fær sérhver nemandi yfirhalningu í formi sértækrar þjálfunar, sem styrkir hans sálrænu og persónulegu stoðir og horft til þess að skerpa á leiðtogahæfileikum hans.

Spurður um gildi námsins fyrir núverandi aðstæður segir Weber mikil­vægt að stjórnendur komi hreint fram: „Frá árinu 1994 hefur ekki verið nein niðursveifla að ráði - ef netbólan er undanskilin - og stór hluti stjórnenda hefur aldrei komist í tæri við viðlíka lægð og þá sem nú hefur riðið yfir. Gildi hreinskilni og trausts eykst enn við þessar aðstæður. Stjórnendur fyrirtækja verða að hafa styrk til að koma fram af heiðar­leika," segir hann.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×