Heimsmeistarinn Sebastien Loeb vann í dag sinn fyrsta sigur á ferlinum í Finnlandsrallinu árlega og er fyrir vikið aðeins einu stigi á eftir Finnanum Mikko Hirvonen í stigakeppni heimsmeistaramótsins.
Loeb, sem ekur á Citroen, kom í mark níu sekúndum á undan heimamanninum Hirvonen sem ekur á Ford. Þriðji varð Ástralinn Chris Atkinson.
Hinn 34 ára gamli Loeb var ekki langt frá því að missa niður forskot sitt í dag þegar hann sneri bíl sínum á næstsíðustu sérleiðinni, en hann hafði engu að síður forystu frá fyrstu sérleið í keppninni.
Þetta var 42. sigur þessa frábæra ökumanns á ferlinum og raunar var þetta aðeins í áttunda sinn sem heimamaður nær ekki að vinna sigur í Finnlandskapakstrinum á þeim 58 árum sem hann hefur verið haldinn.
Þetta var níunda keppnin af fimmtán á heimsmeistaramótinu í ralli, en næsta keppni fer fram í Þýskalandi um miðjan mánuðinn.
Staða efstu manna á heimsmeistaramótinu:
1 Mikko Hirvonen Ford 59
2 Sebastian Loeb Citroen 56
3 Jari-Matti Latvala Ford 34
4 Chris Atkinson Subaru 31
5 Daniel Sordo Citroen 30
6 Petter Solberg Subaru 20