Besta tenniskona heimsins í dag, Ana Ivanovic frá Serbíu, féll óvænt úr leik á Wimbledon-mótinu í tennis.
Ivanovic er í efsta sæti styrkleikalista Alþjóðlega tennissambandsins en í gær féll sú sem er í þriðja sæti, Maria Sharapova, úr leik.
Ivanovic tapaði fyrir Jie Zheng frá Kína í þriðju umferð mótsins í dag, 6-1 og 6-4, og var langt frá sínu besta. Zheng er í 133. sæti heimslistans.
Ivanovic lenti einnig í kröppum dansi gegn Nathalie Dechy í annarri umferð mótsins en nú henni tókst ekki að bæta leik sinn í dag og féll því úr leik. Hún vann sigur á opna franska meistaramótinu í tennis nú fyrr í mánuðinum.
Þá vann Serena Williams sigur á Amelie Mauresmo frá Frakklandi, 7-6 og 6-1, en sú síðarnefnda sigraði á mótinu fyrir tveimur árum.
Í karlaflokki vann Roger Federer auðveldan sigur á Marc Gicquel frá Frakklandi, 6-3, 6-3 og 6-1. Hann mætir Lleyton Hewitt í næstu umferð mótsins.