Bobba, Jóhanna og Bergrún Þórhildur Elín Elínardóttir skrifar 9. júlí 2008 06:00 Eitt fegursta orðið í íslensku máli er ljósmóðir. Í því býr mildi og gæska, umhyggja og virðing fyrir lífi. Fæstar konur sem fætt hafa barn gleyma nokkru sinni þeirri konu sem annaðist þær á meðgöngu, spáði í spilin, samgladdist þegar fyrsti hjartslátturinn heyrðist, skildi allar áhyggjur og sefaði kvíðann. Þegar frumbyrjan vildi í hríðunum helst af öllu hætta við allt saman og var sannfærð um að hún gæti ekki afborið augnablikinu meira vissi ljósmóðirin betur. Þetta var ennþá bara formálinn að því sem koma skyldi og konan myndi þola það líka. Alveg eins og aðrar konur hafa gert frá upphafi lífs. Samt hélt hún fyrir sig vitneskjunni um enn meiri átök, því hlutverk ljósmóður er að róa en ekki hræða. Það er glettilega auðvelt að verða væminn í minningum um þessar konur sem taka þátt í dýrmætustu upplifun lífsins. Líklega krefjast fá störf jafn mikillar fjölhæfni. Ljósmóðir er auðvitað fyrst og fremst sú sem fylgist með því að meðganga og fæðing gangi eðlilega. Er vakandi fyrir merkjum um annað og gerir þær ráðstafanir sem þarf. Um leið sinnir hún sálgæslu, kennir og leiðbeinir nýliðum í foreldrahlutverkinu og líka lengra komnum. Umber saklausa sérvisku mæðra og feðra og tekur stjórnina þegar þau missa hana. Sinnir þeim eins og þau væru sjálf börn, klappar og strýkur, þurrkar svita og tár og miðlar endalausum ráðum úr vísindum og reynslusarpi. Ég man samt líka eftir fúlu ljósmóðurinni sem fékk mig til að grenja af sjálfsmeðaumkun og var snarlega skipt út. Flestar sinna starfi sínu með sóma og af óbilandi áhuga en laun þeirra hafa dregist aftur úr eins og annarra stétta sem einkum eru skipaðar konum. Án ljósmæðra værum við í vondum málum, án hjúkrunarfræðinga og kennara líka. Mikilvægisröðin hefur riðlast, virðing fylgt beinhörðum peningum og öfugt. Veröldin færi ekki á hvolf þótt millistjórnendur bankanna legðu niður störf. En án ljósmæðra kæmi þekking á gengisvísitölum og þróun hlutabréfa að litlum notum. Meðganga og fæðing nýrrar manneskju er göfugasta hlutverkið í þessum heimi. Það er mælikvarði á þroska þjóðar hversu vel hún hlúir að börnum og metur fólkið sem er til staðar á mikilvægustu stundum ævinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórhildur Elín Elínardóttir Mest lesið Ójafn leikur á Atlantshafi Björn Brynjúlfur Björnsson Skoðun Sykursýki snýst ekki bara um tölur Erla Kristófersdóttir,Kristín Linnet Einarsdóttir Skoðun „Samræði“ við barn er ekki til - það er alltaf ofbeldi Guðný S. Bjarnadóttir Skoðun Íslenska módelið í forvörnum – leiðarljós sem við erum að slökkva á Árni Guðmundsson Skoðun Rangfærslur utanríkisráðherra Sigurður G. Guðjónsson Skoðun Saman náum við lengra. Af hverju þverfagleg endurhæfing skiptir máli Rúnar Helgi Andrason Skoðun Ef eitthvað væri að marka Bjarna Gunnar Smári Egilsson Skoðun Ég á þetta ég má þetta Arnar Atlason Skoðun Víð Sýn Páll Ásgrímsson Skoðun Fúsk eða laumuspil? Eva Hauksdóttir Skoðun
Eitt fegursta orðið í íslensku máli er ljósmóðir. Í því býr mildi og gæska, umhyggja og virðing fyrir lífi. Fæstar konur sem fætt hafa barn gleyma nokkru sinni þeirri konu sem annaðist þær á meðgöngu, spáði í spilin, samgladdist þegar fyrsti hjartslátturinn heyrðist, skildi allar áhyggjur og sefaði kvíðann. Þegar frumbyrjan vildi í hríðunum helst af öllu hætta við allt saman og var sannfærð um að hún gæti ekki afborið augnablikinu meira vissi ljósmóðirin betur. Þetta var ennþá bara formálinn að því sem koma skyldi og konan myndi þola það líka. Alveg eins og aðrar konur hafa gert frá upphafi lífs. Samt hélt hún fyrir sig vitneskjunni um enn meiri átök, því hlutverk ljósmóður er að róa en ekki hræða. Það er glettilega auðvelt að verða væminn í minningum um þessar konur sem taka þátt í dýrmætustu upplifun lífsins. Líklega krefjast fá störf jafn mikillar fjölhæfni. Ljósmóðir er auðvitað fyrst og fremst sú sem fylgist með því að meðganga og fæðing gangi eðlilega. Er vakandi fyrir merkjum um annað og gerir þær ráðstafanir sem þarf. Um leið sinnir hún sálgæslu, kennir og leiðbeinir nýliðum í foreldrahlutverkinu og líka lengra komnum. Umber saklausa sérvisku mæðra og feðra og tekur stjórnina þegar þau missa hana. Sinnir þeim eins og þau væru sjálf börn, klappar og strýkur, þurrkar svita og tár og miðlar endalausum ráðum úr vísindum og reynslusarpi. Ég man samt líka eftir fúlu ljósmóðurinni sem fékk mig til að grenja af sjálfsmeðaumkun og var snarlega skipt út. Flestar sinna starfi sínu með sóma og af óbilandi áhuga en laun þeirra hafa dregist aftur úr eins og annarra stétta sem einkum eru skipaðar konum. Án ljósmæðra værum við í vondum málum, án hjúkrunarfræðinga og kennara líka. Mikilvægisröðin hefur riðlast, virðing fylgt beinhörðum peningum og öfugt. Veröldin færi ekki á hvolf þótt millistjórnendur bankanna legðu niður störf. En án ljósmæðra kæmi þekking á gengisvísitölum og þróun hlutabréfa að litlum notum. Meðganga og fæðing nýrrar manneskju er göfugasta hlutverkið í þessum heimi. Það er mælikvarði á þroska þjóðar hversu vel hún hlúir að börnum og metur fólkið sem er til staðar á mikilvægustu stundum ævinnar.