Sport

Federer vann fimmta árið í röð

Elvar Geir Magnússon skrifar
Federar fagnaði sigrinum af mikilli innlifun... vægast sagt!
Federar fagnaði sigrinum af mikilli innlifun... vægast sagt!

Roger Federer frá Sviss vann í kvöld sigur á opna bandaríska meistaramótinu í tennis. Þetta er fimmta árið í röð sem hann vinnur mótið en það er nýtt met.

Federer mætti Andy Murray frá Bretlandi í úrslitum en Murray, sem er 21. árs, var að vonast til að vinna sitt fyrsta risamót.

Federer hafði algjöra yfirburði í úrslitunum og vann í þremur settum 6-2, 7-5 og 6-2.

Þetta er 13. risamótið sem Federer vinnur og er hann aðeins móti á eftir Pete Sampras sem vann 14 risamót. „Það hefur ólýsanlega mikla þýðingu fyrir mig að vinna þetta mót eftir það sem hefur gerst á þessu ári," sagði Federer sem fór ekki leynt með tilfinningar sínar eftir sigurinn.

„Ég er kominn með 13 risatitla og er ekki hættur - það væri bara heimska að stoppa núna. Ég vil samt óska Andy til hamingju með árangur sinn, hann hefur gert magnaða hluti síðustu tvær vikur og ég er viss um að við sjáum meira til hans í framtíðinni," sagði Federer.

Andy Murray komst í úrslitin með því að leggja stigahæsta tenniskappa heims, Rafael Nadal, í undanúrslitunum. „Ég átti gott mót en hindrunin var maður sem að mínu mati er besti tenniskappi sögunnar," sagði Murray eftir úrslitaviðureignina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×