Dómari í Napólí á Ítalíu hefur fyrirskipað að 25 menn skuli hnepptir í stofufangelsi vegna meintra svika í tengslum við sorphirðu í suðurhluta landsins.
Meðal þeirra eru starfsmenn byggingafyrirtækisins Impregilo, sem var aðalverktaki við Kárahnjúkavirkjun.
Heimildarmenn í réttarkerfinu segja að tíu stjórnendur og starfsmenn Impregilo hafi verið hnepptir í stofufangelsi.
Fyrirtækið sér um sorphirðu í Campania-héraði. Lögfræðingar Impregilo segjast ekki hafa heyrt um þessar handtökur og fyrirtækið vill ekki tjá sig um þær að sinni.
Sorp hefur verið að hrúgast upp í Napólí síðan í lok síðasta árs. Það flækir málið að mafían er flækt í málið og hefur stundað ólöglega meðferð á sorpi fyrir ítölsk iðnfyrirtæki.